Eignaréttur II – Umgjörð og flokkun fasteigna
Rit þetta, Eignaréttur 2 – Umgjörð og flokkun fasteigna, er annað bindið í fjögurra binda ritröð höfunda um íslenskan eignarétt. Árið 2020 kom út fyrsta bindið, Eignaréttur I Almennur hluti. Í þessu öðru bindi verður eins og nafnið bendir til fjallað um ýmis atriði sem tengjast umgjörð fasteigna og flokkun þeirra. Umfjöllun um fasteignir eru eittmeginviðfangsefni eignaréttarins. Fasteignir eru að jafnaði verðmætustu eignir einstaklinga í okkar samfélagi og hafa afar mikilvæga efnahagslega þýðingu fyrir þjóðfélagið allt en heildarfasteignamat á landinu fyrir árið 2023 nemur 12.627 milljörðum króna. Þá eru fasteignir þýðingarmikið andlag viðskipta og einstaklingar og fyrirtæki geta tekið lán sem eru tryggð með veði í fasteignum og þannig stundað skuldsett viðskipti í stað þess að staðgreiða.
Þá má ekki gleymast að fasteignir, sem samveru- og griðastaður fjölskyldunnar, hafa mikilvæga félagslega þýðingu enda njóta heimili manna friðhelgi á grundvelli 71. gr.stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í þessu riti er meðal annars að finna umfjöllun um hugtakið fasteign; fylgifé fasteignar; hvernig staðið er að stofnun, skráningu, mati og skiptingu fasteigna; merki fasteigna; þinglýsingu fasteignaréttinda; flokkunina í eignarlönd og þjóðlendur; jarðir; afnotasamninga um fasteignir og fjöleignarhús.
Bókin er ætluð laganemum, lögfræðingum almennt, þar með talið starfandi lögmönnum og dómurum, sem og öðrum þeim sem fjalla um fasteignir og þær réttarreglur sem um þær gilda, til dæmis í stjórnsýslu opinberra stofnana og sveitarfélaga.