• 0 Items - kr.
    • Engar vörur í körfu

Vefverslun

Eignarnám

14.900 kr.

Bókin Eignarnám er heildstætt fræðirit sem byggist á rannsóknum höfunda á öllum þáttum framkvæmdar eignarnáms síðustu áratugi. Áhersla er lögð á sjálfa eignarnámsákvörðunina og ákvörðun eignarnámsbóta, sem hafa hvað mesta þýðingu í framkvæmd, en jafnframt fjallað um ferlið í heild allt frá undirbúningi þeirrar framkvæmdar sem eignarnám kann síðar að helgast af og til þess tíma sem umráðataka fer fram. Enn fremur eru tekin til umfjöllunar ýmis önnur atriði sem tengjast eignarnámsferlinu, svo sem varanleiki eignarnáms, og hugmyndir höfunda um mögulegar úrbætur á löggjöf sem tengist eignarnámi.

 

Bókin er ætluð starfandi lögfræðingum og öllum þeim sem koma að eignarnámi með einum eða öðrum hætti, hvort sem er í stjórnsýslu, á vettvangi opinberra stofnana eða sveitarfélaga. Þá gagnast ritið lögmönnum og starfsmönnum einkafyrirtækja. Að sama skapi er það ætlað laganemum og því jafnframt hugsað sem kennslubók við lagadeildir háskólanna.

Höfundar eru Karl Axelsson og Ásgerður Ragnarsdóttir.

 

Efnisyfirlit

Persónuverndarréttur

15.900 kr.

Bók þessi fjallar um þær réttareglur sem gilda á sviði persónuverndarréttar, fræðilegar undirstöður þeirra, uppruna, markmið, helstu efnisreglur svo og framkvæmd að íslenskum rétti. Þá eru rannsökuð sérstaklega tengsl persónuverndar við friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi. Gerð er grein fyrir meginheimild réttarsviðsins persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins frá 2016, sem var tekin upp í EES- samninginn og innleidd með lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Markmið ritsins er að veita heildstæða mynd af því hvernig meginreglur og ákvæði reglugerðinnar og laganna birtast í íslenskri réttarframkvæmd í ljósi þróunar í Evrópurétti. Gerð er grein fyrir helstu hugtökum, heimildum til vinnslu persónuupplýsinga, réttindum skráðra einstaklinga, skyldum ábyrgðar- og vinnsluaðila, öryggi persónuupplýsinga, flutningi persónuupplýsinga til þriðju landa svo og eftirliti með lagaframkvæmd. Þá er lýst túlkun og beitingu réttarreglna um einkalífs- og persónuvernd í framkvæmd íslenskra dómstóla, Mannréttindadómstóls Evrópu, Evrópudómstólsins og úrlausnum Persónuverndar.

Bókin er einkum ætluð þeim sem stunda rannsóknir eða nám á háskólastigi á sviði persónuverndarréttar en einnig þeim sem starfa á vettvangi stjórnsýslu og dómstóla svo öllum öðrum sem vinna með persónuupplýsingar í daglegum störfum.

Efnisyfirlit bókarinnar

Dómar í vátryggingarétti 1920-2020

9.900 kr.

Bókin er dómasafn á sviði vátryggingaréttar og byggist á áralöngum rannsóknum prófessors Viðars Más Matthíassonar. Ritið hefur að geyma reifanir dóma Hæstaréttar Íslands á sviði vátryggingaréttar frá stofnun réttarins, þann 16. febrúar 1920 til sama dags árið 2020, eða á 100 ára timabili. Einnig eru í ritinu reifanir Landsréttar á sama réttarsviði frá stofnun dómstólsins til 16. febrúar 2020.

Bæði er unnt að leita að dómum eftir venjulegu efnisyfiriti og eftir ítarlegri atriðisorðaskrá og lagaskrá sem má finna í ritinu. Auðvelt er því að finna dóma sem skipt geta máli fyrir þann sem leitar.

📄Efnisyfirlit (pdf)

Réttarfar Félagsdóms

9.900 kr.

Bókin fjallar um uppbyggingu og hlutverk Félagsdóms, greinir sérstakar réttarfarsreglur sem gilda um dómstólinn og ber þær saman við hefðbundna réttarfarslöggjöf. Í því samhengi er meðal annars horft til réttarfarslegra krafna til aðildar mála fyrir Félagsdómi, kröfugerða og lögsögu dómstólsins, en reglulega reynir á mörk lögsögu dómstólsins gagnvart hinum almennu dómstólum. Rannsókn bókarinnar lýtur að dómum Félagsdóms frá stofnun hans árið 1938 til 20. febrúar 2020, auk dóma Hæstaréttar Íslands er vikið hafa að dómsúrlausnum og lögsögu Félagsdóms.

Ógildingarreglur samningaréttar

15.900 kr.

Bók þessi fjallar um ógildingarreglur samningaréttar og er afrakstur kerfisbundinnar greiningar á lögum og lagaframkvæmd á þessu mikilvæga sviði lögfræðinnar. Ætlunin er að ná heildstætt utan um aðalatriði ógildingarreglnanna meðal annars með hliðsjón af úrlausnum Hæstaréttar Íslands þar sem deilt hefur verið um gildi samninga og annarra löggerninga. Umfjöllun bókarinnar er skipt í megindráttum í tvennt. Í fyrri hluta bókarinnar er fjallað almennt um ógildingarreglur samningaréttar. Tilgangur þeirrar umfjöllunar er að varpa ljósi á ógildingarástæður samningaréttar í heild sinni og gera efni bókarinnar aðgengilegra. Í seinni hlutanum eru einstakar ógildingarástæður samningalaganna teknar til nánari umfjöllunar.
📄Efnisyfirlit (pdf)

Eignaréttur I

15.900 kr.

Eignaréttur I, er hið fyrsta í fyrirhugaðri þriggja binda ritröð höfunda um íslenskan eignarétt. Þetta fyrsta bindi tekur til umfjöllunar reglur sem eru sameiginlegar flestum eignarréttindum og varða grundvallarþætti í íslenskri eignarréttarskipan. Í ritinu er fjallað um ýmsar raunhæfar réttarreglur sem oft reynir á fyrir dómstólum, eins og til dæmis andlag eignarréttar, eignaraðild, eignarform, forkaupsrétt og önnur óbein eignarréttindi, réttarreglur um sérstaka sameign, stofnunarhætti eignarréttinda og nábýlisrétt.
Höfundar eru Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Víðir Smári Petersen
📄Efnisyfirlit (pdf)

Málsmeðferð stjórnvalda

15.900 kr.

Bók þessi er hluti af ritröð á sviði lögfræði sem fjallar á heildstæðan hátt um almennar réttarreglur íslensks stjórnsýsluréttar. Bera ritin í ritröðinni eftirfarandi heiti: Stjórnsýslukerfið, Málsmeðferð stjórnvalda, Upplýsingaréttur, Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttar, Endurskoðun stjórnvaldsákvarðana, Opinber starfsmannaréttur og Stjórnsýsla á sveitarstjórnarstigi. Ritröðin er í heild unnin undir ritstjórn dr. juris Páls Hreinssonar forseta EFTA-dómstólsins og Trausta Fannars Valssonar dósents við Lagadeild Háskóla Íslands. Höfunda er síðan getið í hverju bindi fyrir sig.

Höfundur bókarinnar er Páll Hreinsson forseti EFTA-dómstólsins. Í bókinni fjallar Páll á skýran hátt um þær réttarreglur sem gilda um það hvernig stofnað er til stjórnsýslumála, hvernig þau eru rannsökuð og hvernig ákvörðun er tekin í þeim. Vikið er að mörgum mikilvægum reglum, s.s. um sérstakt hæfi starfsmanna stjórnvalda, leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, rannsóknarreglu, andmælareglu, reglum um aðgang aðila máls að gögnum málsins og reglum um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana o.fl. Þá er í bókinni vikið að þýðingu persónuupplýsingalaga við meðferð stjórnsýslumála. Sjónarhornið er samskipti borgaranna, þ.e. aðila málsins, og þess stjórnvalds sem fer með málið og tekur ákvörðun. Samhliða kemur út ritið Stjórnsýslukerfið eftir Trausta Fannar Valsson.

📄Efnisyfirlit (pdf)

Stjórnsýslukerfið

9.900 kr.

Bók þessi er hluti af ritröð á sviði lögfræði sem fjallar á heildstæðan hátt um almennar réttarreglur íslensks stjórnsýsluréttar. Bera ritin í ritröðinni eftirfarandi heiti: Stjórnsýslukerfið, Málsmeðferð stjórnvalda, Upplýsingaréttur, Almennar efnisreglur stjórnsýsluréttar, Endurskoðun stjórnvaldsákvarðana, Opinber starfsmannaréttur og Stjórnsýsla á sveitarstjórnarstigi. Ritröðin er í heild unnin undir ritstjórn dr. juris Páls Hreinssonar forseta EFTA-dómstólsins og Trausta Fannars Valssonar dósents við Lagadeild Háskóla Íslands. Höfunda er síðan getið í hverju bindi fyrir sig.

Höfundur bókarinnar er Trausti Fannar Valsson dósent. Meðal mikilvægra umfjöllunarefna í bókinni er aðgengileg lögfræðileg lýsing á stjórnsýslukerfinu, þ.e. á því hverjir fara með stjórnsýsluna, hvernig einstakar skipulagsheildir, stigveldi og yfirstjórn er almennt upp byggð innan kerfisins og hvernig má framselja vald frá einu stjórnvaldi til annars. Í bókinni er einnig lýst á heildstæðan hátt þeim verkefnum sem stjórnvöld sinna og þeim stjórntækjum sem þau hafa til að framkvæma þau. Má líta á hana sem inngang að almennum stjórnsýslurétti. Samhliða kemur út ritið Málsmeðferð stjórnvalda eftir dr. juris Pál Hreinsson.

📄Efnisyfirlit (pdf)

Fjölmiðlaréttur

10.900 kr.

Fjölmiðlaréttur er sú undirgrein lögfræðinnar sem fæst við þær réttarreglur er snerta stöðu og starfsemi fjölmiðla. Í ritinu er með heildstæðum hætti gerð grein fyrir helstu reglum greinarinnar, en hinar íslensku reglur á þessu sviði hafa mikil tengsl við alþjóðlega samninga um mannréttindi og hafa sætt verulegum breytingum á undanförnum árum.
Í bókinni er ítarlega fjallað um mannréttindaákvæði, tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs og ákvæði laga um fjölmiðla, þ. á m. um réttindi og skyldur fjölmiðla. Eins er fjallað um meiðyrðalöggjöfina og þær reglur sem gilda um ábyrgð á fjölmiðlaefni, sem og gildandi reglur um auglýsingar og önnur viðskiptaboð.
Bókin er rúmlega 460 bls. að lengd, prentuð á hágæða bókapappír og gefin út í harðspjaldi.
Bókin gagnast laganemum og starfandi lögfræðingum, ásamt fjölmiðlafólki og öllum öðrum sem vilja glöggva sig á réttarreglum um fjölmiðla og starfsemi þeirra.
EIRÍKUR JÓNSSON
Eiríkur Jónsson er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hann lauk embættisprófi í lögfræði árið 2002, LL.M. gráðu frá Harvard Law School árið 2006 og doktorsprófi (Ph.D.) frá Háskóla Íslands 2011. Eiríkur hefur m.a. verið formaður fjölmiðlanefndar og formaður áfrýjunarnefndar neytendamála.
HALLDÓRA ÞORSTEINSDÓTTIR
Halldóra Þorsteinsdóttir er sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hún lauk Mag. Jur. gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2010 og MBA gráðu frá Háskóla Íslands 2015. Halldóra situr í fjölmiðlanefnd og er formaður áfrýjunarnefndar neytendamála.
📄Efnisyfirlit (pdf)

Hrunréttur

8.900 kr.

Hrunréttur fjallar um verkefni Alþingis, stjórnvalda og dómstóla í kjölfar efnahagshrunsins sem varð á Íslandi haustið 2008. Í bókinni er m.a. fjallað um þá löggjöf sem sett var til að bregðast við hruninu og nánar tilteknar aðgerðir stjórnvalda. Þá er fjallað um helstu úrlausnir dómstóla er tengjast þeim álitaefnum sem komu upp. Bókin varpar ljósi á lagalegar afleiðingar hrunsins og nánar tiltekna þætti þess ásamt því að greina kerfisbundið lög og lagaframkvæmd eftir hrunið.
Í bókinni eru dregnar saman og settar fram með aðgengilegum hætti miklar upplýsingar sem safnast hafa saman á þeim rúmu tíu árum sem liðin eru frá hruni. Slíka heildaryfirsýn hefur hingað til vantað en saman komin á einn stað veitir hún einstaka innsýn í verkefni fullvalda ríkis við efnahagslegt áfall.
Höfundar Hrunréttar eru Ása Ólafsdóttir, Eyvindur G. Gunnarsson og Stefán Már Stefánsson, prófessorar við Lagadeild Háskóla Íslands. Þau hafa öll skrifað um ýmsa þætti hrunsins auk þess að hafa veitt stjórnvöldum ýmsa aðstoð við lögfræðileg álitamál tengd hruninu.
📄Efnisyfirlit (pdf)

Evrópskur bankaréttur

9.900 kr.

Fyrir tilstilli EES-samningsins hefur íslensk löggjöf um starfsemi lánastofnana á borð við banka og sparisjóði verið samofin Evrópurétti í tæpan aldarfjórðung. Á þessu tímabili hefur evrópskur bankaréttur tekið miklum breytingum, en þetta á ekki síst við í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu sem gerði fyrst vart við sig árið 2007 og komst í hámæli haustið 2008.
Ritið kortleggur reglur Evrópusambandsins á þessu sviði, rekur sögulega þróun réttarsviðsins og skýrir jafnframt áhrif þeirra á íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Áhersla er lögð á að útskýra samspil evrópsks bankaréttar og almennra reglna Evrópuréttarins, einkum um fjórfrelsið. Þá er gerð grein fyrir bankastarfsemi í sögulegu og hagfræðilegu samhengi. Loks er einnig fjallað um megindrætti fjármálaeftirlits og framkvæmd þess á Íslandi.
Bókin er tæpar 250 bls. að lengd, prentuð á hágæða bókapappír og gefin út í harðspjaldi.
Ritið nýtist lögfræðingum og öðrum sem fást við bankarétt, einkum þeim sem starfa í fjármálafyrirtækjum, við fjármálaeftirlit eða við aðra stjórnsýslu tengda lánastofnunum.
UM HÖFUNDINN
Arnaldur Hjartarson er aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands og aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn. Hann er með LL.M. gráðu frá Yale háskóla, en þaðan útskrifaðist hann með hæstu mögulegu einkunn. Áður lauk hann laganámi við Háskóla Íslands. Hann hefur meðal annars starfað sem sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands, aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands og verið settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Kennslugreinar hans hafa einkum verið: Evrópuréttur, evrópskur bankaréttur, félagaréttur, fjármálamarkaðir, alþjóðlegur einkamálaréttur, kröfuréttur og réttarhagfræði.
📄Efnisyfirlit (pdf)

Stefánsbók

11.900 kr.
Höf.

Í tilefni af farsælum akademískum ferli Stefáns Más Stefánssonar prófessors emeritus var ákveðið að gefa út veglegt fræðirit, sem nefnt er Stefánsbók, honum til heiðurs.
Í Stefánsbók er einkum að finna greinar á sviði réttarfars, félagaréttar og Evrópuréttar sem eru þau réttarsvið sem Stefán Már hefur lagt hvað mesta rækt við. Flestar greinar í ritinu eru á íslensku en einnig má finna greinar á ensku og dönsku. Lista yfir höfunda í ritinu, heiti greina þeirra ásamt stuttu yfirliti yfir menntun og núverandi starf þeirra er að finna hér.
📄Efnisyfirlit (pdf)